Ársfundur Samtaka lesblindra á Norðurlöndum í Færeyjum 23.-25. september 2022 

Endilega deildu okkur

Félag lesblindra á Íslandi á formlega aðild að Samtökum lesblindra á Norðurlöndum. Þar eiga sex lönd fulltrúa: Noregur, Svíþjóð, Finnland, Danmörk, Ísland og Færeyjar. Þann 23-25. September var ársfundur þessara samtaka haldinn í Færeyjum, en fundurinn færist á milli landana á hverju ári og verður haldin í Danmörku 2023. Tilgangur fundarins er að miðla þekkingu og reynslu af starfi lesblindra og að kynna nýjustu rannsóknir og útgáfu. Þátttakendur voru frá öllum sex löndunum, en alls sóttu 18 fulltrúa fundinn.

Á Norðurlöndunum búa um 28 milljónir manns, og áætla má að um einn fimmti þeirra, eða um 5,6 milljónir manna, glími við lestrarörðugleika. Mikil þörf ríkir því á öflugu starfi þessara félaga og sækja þau kraft og hugmyndir í samstarfi Norðurlanda.

Hér er greint frá því helsta sem gerðist á síðasta ársfundi:

1. Fulltrúi Danska aðildarfélagsins fjallaði um hvernig ætti að meðhöndla lesblindu í skólunum. Ljóst er að þó danskir skólar standi vel að vígi gagnvart lesblindu mætti gera þar betur. Fulltrúinn fjallaði um hvernig skólarnir í Danmörku væru að reyna að bæta vinnubrögð þegar kemur að lesblindu og lestrarörðugleikum og hvað hafi tekist vel í þeirri nálgun. [Vef danska félagsins má finna í eftirfarandi hlekki: https://www.ordblindeforeningen.dk/

2. Fulltrúi sænska aðildarfélagsins greindi frá vel heppnuðu verkefni í Svíþjóð sem snýr að því að auðvelda lesblindum börnum lestur og skrif í gegnum leiki, myndbönd og tónlist. Þátttakendur verkefnisins sögðu aðferðina árangursríka. Fulltrúinn hvatti önnur ríki til að framkvæma svipuð verkefni, enda rík þörf á lausnum og hér væri á ferð aðferð sem augljóslega virkaði. [Vef sænsku samtakanna má finna í eftirfarandi hlekki: https://dyslexi.org/]

3. Samtök lesblindra í Noregi eru einnig að vinna því að skapa betri aðstæður fyrir lesblinda. Þetta gera þeir með verkefninu  „Lesblindu vænir skólar“, sem er í dag orðið að samstarfsverkefni Norsku lesblindusamtakanna, Norska kennarasambandsins og norska mennta- og rannsóknamálaráðuneytisins. Markmið verkefnisins er að gera skóla „lesblindu vænni“ með því að veita kennurum viðkomandi þjálfun á sviðum eins og í lestri, skrift, stafsetningu og sjónrænni skynjun. Þá er einnig ætlunarverkið að þróa sjálfshjálpartæki fyrir foreldra sem vilja aðstoða börn við nám sín séu þau með leshömlun. [Vef norsku samtakanna má finna í eftirfarandi hlekki: https://dysleksinorge.no/]

Félag lesblindra á Íslandi hyggst innleiða verkefni þetta hér á landi.

4.  Fulltrúi Félags lesblindra á Íslandi greindi frá áherslum til að fá íslenskri löggjöf breytt svo þeir sem greinist lesblindir fái viðeigandi aðstoð í stað mismununar. Vitundarvakning sé nauðsynleg, enda eigi allir að vita hvað lesblinda er og hvernig meðhöndla eigi lesblindu. Þá kynnti félagið á fundinum rannsókn Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um samband kvíða og lesblindu í grunnskólum landsins og þátt sem gerður var um rannsóknina í kjölfarið. [Sjá vef íslenska félagsins hér: https://www.lesblindir.is/

5. Fulltrúi finnska félagsins flutti áhugavert erindi á ársfundinum en hann greindi frá því að á Finnlandi séu 14 skrifstofur og njóta þau ólíkt íslensku systursamtökunum opinbers stuðnings. Samtökin, sem kalla sig „Samband ólíkra nemenda“, eru regnhlífarsamtök allra þeirra sem eiga við námsörðugleika að etja í Finnlandi. [Vef finnsku samtakanna má finna í eftirfarandi hlekki:www.www.eoliitto.fi]

6. Færeysku samtökin komu á framfæri ýmsum góðum hugmyndum og sögðu þeir mikilvægt að hitta aðra sem ynnu að lausn sama vanda. Á fundinum hélt Mona Steintún erindi og kynti nýja laus sem opnuð hefur verið í nýja menntaskólanum GLASIR og er séstaklega hugsuð fyrir lesblinda og þar er hún með góða aðstöðu til að leiðbeina og hjálpa lesblindum nemendum. [Vef færeysku samtakanna má finna í eftirfarandi hlekki: https://www.lesa.fo]

Á fundinum kom fram að þrátt fyrir að öll Norðurlöndin hafi sett lög gegn mismunun sé mikil þörf á að miðla upplýsingum meðal kennara, foreldra, rannsakenda og samfélagsins í heild um lesblindu. Umfjöllun um lög um mismunun sýndi að ákvæðum þeirra er beitt á mismunandi hátt í Norðurlöndunum. Þau eru túlkuð með ólíkum hætti af einstaklingum, stofnunum og samtökum. Þetta gæti verið vegna þess að mismunandi áhersla er lögð á lesblindu sem „fötlun“.

Fundurinn í Færeyjum undirstrikaði mikilvægi þátttöku Félags lesblindra á Íslandi í norrænu samstarfi. Með því miðlum við gagnlegum upplýsingum, lærum af frændþjóðum og þróum hraðar starf samtakanna. Samhugur ríkti meðal allra fulltrúa lesblindra frá Norðurlöndunum og fundurinn skilaði áætluðum árangri.