Skilgreiningar á lesblindu

Endilega deildu okkur

Skilgreining Alþjóðasamtaka taugalækna (e. World Federation of Neurology) frá árinu 1968 hljómar á þann veg að lesblinda (dyslexía) sé skert hæfni til að lesa skrifað eða prentað mál, þó að sjón og greind séu óskert.

Skilgreining Bresku lesblindusamtakanna (e. British Dyslexia Association) frá árinu 1989 er mun víðtækari. Þar segir að lesblinda (dyslexía) sé sértækur námsörðugleiki, eðlislægur að uppruna, sem birtist í erfiðleikum með lestur, stafsetningu og meðferð ritaðs máls. Þessi vandkvæði geti einnig náð til stærðfræði. Lesblinda tengist einkum erfiðleikum við að ná tökum á ritmáli (stafrófs, talna og tónlistar), enda þótt þetta geti einnig tengst töluðu máli að einhverju marki.

Árið 1995 setti samstarfshópur bandarískra vísindamanna, félags áhugamanna um lesblindu, og fulltrúa Bandarísku barnaheilbrigðisstofnunarinnar, fram skilgreiningu sem lýsti breyttum skilningi á eðli lesblindu. Þar segir að lesblinda felur í sér áskapaða málhömlun sem lýsir sér í erfiðleikum í úrlestri stakra orða (e. single word decoding) og beri vott um ófullnægjandi hljóðkerfisúrvinnslu. Hópurinn lagði áherslu á að þessir erfiðleikar sem ná yfir lestur, ritleikni og stafsetningu, séu oft óvæntir þegar horft sé til aldurs, námsgetu og vitsmuna.