Hvað getur félagið gert fyrir þig

Félag lesblindra á Íslandi veitir margs konar stuðning og fræðslu og hér á eftir er fjallað nánar um nokkur þeirra úrræða sem félagið býður upp á og gætu hentað þér.

Til félagsins leita margir lesblindir og aðstandendur þeirra eftir stuðningi og fræðslu og leggur félagið áherslu á að þjónusta einstaklinga endurgjaldslaust þar sem félagslegar aðstæður lesblindra eru oft ekki góðar. Félagið leiðbeinir um rétt þeirra til þjónustu og aðstoðar þá hvar þeir geti nálgast slíka þjónustu  þar sem oft er erfitt að fá upplýsingar um slíkt í opinbera kerfinu. Einnig er félagið að sinna hagsmunagæslu með aðilum sem leita til þess sérstaklega í tengslum við  skólastarf.

Skólaheimsóknir

FLÍ hefur á undaförnum árum farið í fjölmarga skóla með það að markmiði að kynna lesblindu sem og að kynna starfsemi félagsins.  Síðastliðin ár hefur félagið heimsótt unglingadeildir grunnskóla þar sem rætt er við alla nemendur ekki aðeins þá lesblindu um lesblindu, einkenni,áskoranir og  styrkleika lesblindra. Þá er farið yfir hvaða úrræði hafa nýst vel til að takast á við þær áskoranir sem fylgja lesblindu. Einnig hafa kennarar skólana fengið sérstakt erindi og oft eru haldnir sérstakir fundir fyrir foreldra.  Ef þú hefur áhuga á að fá heimsókn í þinn skóla endilega vertu í sambandi við félagið.

Ráðgjöf um aðlögun í vinnuumhverfinu

Einkenni lesblindu eru mismunandi eftir störfum og eðli verkefna og engir tveir lesblindir starfsmenn hafa nákvæmlega sömu einkennin eða þurfa sömu aðlögun. Það sem virkar fyrir einn mun kannski ekki virka fyrir annan. Oft geta smávægilegar breytingar á vinnustaðnum gert það að verkum að lesblindir geti nýtt hæfileika sína vinnustaðnum til góða. Félagið býður upp á fjölbreytta ráðgjöf fyrir einstaklinga og vinnustaði varðandi hvers konar aðferðir og tækni sem nýtast lesblinda starfsmanninum og kynna hvaða úrræði eru í boði sem henta viðkomandi einstaklingi.

Einstaklingsráðgjöf

Félagið býður upp á einstaklingsráðgjöf á skrifstofutíma þar sem aðilar geta komið og fengið sértæka ráðgjöf varðandi sín einkenni og úrræði. Félagsmönnum býðst að panta tíma þar sem starfsmaður félagsins greinir þarf viðkomandi og kemur með tillögur að lausnum. Þá aðstoðar hann félagsmenn við að nálgast hugbúnað og setja hann upp á símum, spjaldtölvum og tölvum.

Námskeið

Námskeiðið Færni

Námskeiðið hefur verið í boði frá árinu 2008 og hefur verið kennt um allt land. Námskeiðið miðar að því að kynna og kenna á þau rafrænu verkfæri sem geta nýst lesblindum og öðrum sem hafa áhuga á að auka færni  sína á að nýta slík verkfæri til að auðvelda lestur og skrift. Námskeiðið  er sérlega hagnýtt og nýtist jafnt í starfi sem heima. Þátttakendur kynnist þeim rafrænu verkfærum sem í boði eru og öðlist öryggi og færni í notkun þeirra (hugbúnaður og tæki). Námskeiðið hentar þeim sem hafa einhvern tölvugrunn, en það er þó ekki skilyrði. Þátttakendur geta jafnvel verið áhorfendur og þannig byrjað að kynnast þeim verkfærum sem í boði eru.

Í boði eru tvær útfærslur af námskeiðinu. Annars vegar er um að ræða fimmtán tíma námskeið sem haldið er yfir þrjá daga og hins vegar örnámskeið sem tekur eina kvöldstund. Lengra námskeiðið er boðið í gegnum endurmenntunarstöðvar víðs vegar um land, en styttri námskeiðið hefur verið ýmist haldið í skólum, vinnustöðum eða á vegum félagsins.

Námskeið fyrir ungmenni og foreldra þeirra

Lesblinda, nám og námstækni

Námsskeið  fyrir lesblind ungmenni á aldrinum 10-15 ára og foreldra þeirra þar sem farið er í einkenni lesblindu, styrkleika lesblindra, leiðir til að byggja upp sjálfstraust, tækni og hugbúnað, námstækni sem nýtist lesblindum og hvernig geta foreldrar best hjálpað heima fyrir.

Snjalltækjanámskeið

Námskeið fyrir  fyrir ungmenni og foreldra. Þar er sérstaklega  farið í notkun á snjalltækjum sem og á hugbúnað sem nýst geta lesblindum ungmennum. Oft strandar notkun á þessum hjálpartækjum á því að lesblind ungmenni eru feimin við að nýta hjálpartækin og  foreldrar hafa ekki næga kunnáttu til að styðja og hvetja börnin til að nýta þessi tól. 

Félagið hefur einnig boðið upp á styttri sérhæfðari námskeið eins og:

  •  Hvernig nýta má símann sem hjálpartæki (2 klst)
  •  Algeng hjálpartæki fyrir lesblinda (2 klst)
  • Einkenni lesblindu (2 klst)
  • Námskeið fyrir kennara um hjálpartæki (1 1/2 klst)