Einkenni lesblindu

Endilega deildu okkur

Þrátt fyrir rannsóknir á lesblindu hefur ekki enn tekist að finna nákvæmlega út orsök hennar. Almennt er þó viðurkennt að þær megi rekja til heilastarfsemi og að hún sé af taugalíffræðilegum uppruna.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að lesblinda hefur enga samsvörun við greind. Lesblindir hugsa og læra á annan hátt en þeir sem ekki eru lesblindir. Þeir nota hægra heilahvelið meira, en lestur og önnur úrvinnsla tungumáls fer aðallega fram í því vinstra.

Algengasti skilningur á lesblindu er að um sé að ræða erfiðleika við lestur og skrift, enda er það algengast. Einkennin eru þó ekki eingöngu tengd lestri og þau eru ekki eins hjá öllum. Þau hverfa almennt ekki með aldrinum og er breytilegt hve þau há fólki.

Eitt einkennið er dagamunur á getu. Þannig getur lestur annan daginn gengið vel , en hinn mjög illa. Engin skýring finnst á þessum dagamun.

Önnur einkenni lesblindu geta verið áttavilla og ratvandamál. Til að mynda geta hugtökin hægri og vinstri, inn og út og upp og niður, verið lesblindum örðug. Einnig eru algengir erfiðleikar með raðskipan eða raðvinnslu, til dæmis að læra margföldunartöfluna eða muna mánuði ársins.

Sjaldgæft er að sami einstaklingur sýni öll ofangreind einkenni.

Styrkleikar

Lesblindu fylgja ekki eingöngu hamlanir, heldur getur falist í henni ýmis styrkur, sem því miður njóta sín oft ekki sem skyldi. Lesblindir eru iðulega þrautseigir og gefast ekki auðveldlega upp. Þeir hafa margir sterka sjónræna færni, eru handlagnir, með mikla samskiptahæfni og oft skapandi hugsun. Margir lesblindir sjá lausn verkefna og vandamála á annan hátt. Ótal tækifæri liggja í þessum eiginleikum sem vert er að hlúa að. Lesblindir geta komið með ferska sýn á verkefni og aðrar lausnir.