Góð ráð fyrir vinnuveitendur

Endilega deildu okkur

Það mikilvægasta sem vinnuveitandi getur gert fyrir lesblindan starfsmann er að sýna skilning. Lesblinda er ekki val heldur veruleiki sem þessir starfsmenn þurfa að takast á við. Margir lesblindir hafa staðið frammi fyrir mikilli neikvæðni í lífinu og þar af leiðandi getur skilningur og jákvæðni gefið lesblinda starfsmanninum aukið sjálfstraust sem gerir honum kleift að nýta betur það sem hann er sterkastur í. Auk þess er mikilvægt að skilja að engir tveir lesblindir starfsmenn hafa nákvæmlega sömu einkennin eða þurfa sömu aðlögun. Það sem virkar fyrir einn mun kannski ekki virka fyrir annan. Gott er að byrja á að yfirfara starfslýsingu starfsmanns, verkefnin og hvaða þættir það eru sem lesblindan hefur mest áhrif á. Einnig ætti að skoða hvort þörf sé á sérstakri þjálfun eða kennslu. Stuðningur getur falið í sér reglulega fundi til að fara yfir markmið og veita hjálp við að forgangsraða og skipuleggja verkefni sem og að setja
raunhæf markmið og tímamörk. Oft þarf að gera tilraunir til að sjá hvað virkar best til að aðlaga vinnuumhverfið, en hér á eftir eru tiltekin nokkur atriði sem reynst hafa vel og eru mörg hver afar einföld í framkvæmd. Gott er að hafa í huga að mörg þessara atriða nýtast öllum, ekki bara lesblindum.

Skrifleg samskipti

Í samskiptum við lesblinda er gott að hafa eftirfarandi atriði í huga:

  • Gefið munnlegar og skriflegar leiðbeiningar.
  • Hafið ekki of mikinn texta í leiðbeiningum ogundirstrikið það sem mikilvægt er.
  • Sendið hljóðskilaboð.
  • Hafið talgervil aðgengilegan.
  • Hafið skanna aðgengilegan til að setja texta í stafrænt form svo hægt sé að nýta talgervil.
  • Hafið litaðan pappír aðgengilegan til að prenta á því hann endurkastar ekki jafn miklu ljósi og hentar mörgum lesblindum betur en hvítur.
  • Litaðar glærur til að leggja yfir texta geta auðveldað mörgum lesturinn.
  • Leyfið starfsmanni að koma skilaboðum eða verkefnum til skila munnlega eða með hugarkortum.

Lestur og ritun

Eftirfarandi atriði eru gagnleg þegar kemur að lestri og ritun lesblindra starfsmanna. Þeim fylgir ekki mikillkostnaður heldur meira smá aðlögun og breyting á
vinnubrögðum. Gefið starfsmanninum nægan tíma til að lesa og ljúka við verkefni.

  •  Ræðið efni við starfsmann með samantekt lykilatriða.
  • Setjið upplýsingar fram með t.d. hljóð- eða myndbandi, teikningum, skýringarmyndum og flæðiritum.
  •  Hafið leiðréttingarhugbúnað tiltækan á tölvu þess lesblinda.
  • Gott er að hafa litaðan pappír eða glærur til taks vegna lesturs.
  • Hafið stafræn upptökutæki aðgengileg, þau auðvelda skráningu á gögnum.
  • Fáið einhvern annan en þann lesblinda til að rita fundi.
  • Notið leturgerðir sem eru þægilegar aflestrar, s.s. sans-serif eins og Arial eða Comic Sans.
  • Leturstærð á ekki að vera minni en 11 punktar. Gott er að hafa aukið leturbil og feitletra aðalatriði.
  • Ekki skáletra texta, það gefst illa fyrir lesblinda.

Vinna við tölvu

Vinna við tölvu getur falið í sér áskoranir, en neðangreindir punktar eru til gagns í því samhengi. Þessi ráð gagnast öllum og eru því ekki bara ætluð fyrir lesblinda starfsmenn.

  • Hafið leiðbeiningar aðgengilegar um hvernig breyta megi letri, leturstærð og skjálit.
  • Ef starfsmaður vinnur mikið úti á vettvangi er gott að útvega honum spjaldtölvu eða snjallsíma til að hann nái að nýta þau hjálpartæki sem í boði eru (helstAndroid tæki sem skilur og talar
  • íslensku).
  • Setja upp tölvur með hjálparbúnaði s.s. leiðréttingarbúnaði og talgervli.
  • Hafa heyrnartól eða hátalara aðgengileg á vinnustöð.
  • Leyfa hlé að minnsta kosti á klukkutíma fresti.
  • Forðast samfellda tölvuvinnu í heilan dag.

Munnleg samskipti

  • Gefa skýr fyrirmæli og helst ein í einu á rólegum stað.
  • Skrifa niður mikilvægar upplýsingar.
  • Hvetja viðkomandi til að skrá minnispunkta.
  • Spyrja út í efnið til að vera viss um skilning.
  • Nýta upptökutæki til að skrá upplýsingar.
  • Gefa viðkomandi lengri tíma í prófum.

Einbeiting / truflun

Öll bregðumst við mismunandi vel við truflunum. Lesblindir eru útsettari fyrir að láta truflast af umhverfi sínu, jafnvel svo mikið að þeir missi einbeitingu. Sökum þessa er gott að hafa þessi atriði í

huga:

  • Reynið að staðsetja vinnustöð á rólegum stað þar sem lítið er um truflun, t.d. vegna umgangs, símtala eða hávaða frá tækjum.
  • Ef hentar getur verið gott að leyfa starfsmanni að vinna stundum heima hjá sér.
  • Skipuleggið vinnu þannig að viðkomandi geti einbeitt sér að einu verkefni í einu ef hægt er.
  • Ef vinnustöð er í opnu rými er gott að hafa aðgengilega rólegri aðstöðu, s.s. lokuð vinnusvæði sem hægt er að nýta þegar þörf krefur.
  • Stillið farsíma þannig að þeir valdi ekki truflun ef hægt er.
  • Útbúið ‘Truflið ekki’ skilti sem hægt er að setja á áberandi stað við starfsstöð.

Eins og áður hefur komið fram er rétt að benda á að þessar ráðstafanir koma öllu starfsfólki að gagni, enda eru afköst og gæði vinnu flestra að einhverju leyti háð

því næði sem það fær við vinnu sína. Því skilar þetta sér í betra vinnuumhverfi fyrir alla.

Skipulagning og tímastjórnun

Gott er að þjálfa starfsfólk í virkri tímastjórnun og skipulagningu verkefna. Það eykur afköst og gerir vinnu þess árangursríkari og skilvirkari.

  • Hvetjið starfsmenn til að nýta dagbækur til að skipuleggja tímann.
  • Nýtið dagbækur í borðtölvum og snjalltækjum þegar hægt er.
  • Nýtið hugarkortshugbúnað eins og Mind Manager.
  • Bjóðið upp á námskeið í tímastjórnun.
  • Hvetjið stjórnendur til að fara reglulega yfir verkefnalista og forgangsröðun með starfsmönnum.
  • Hafið verkefnalista sýnilega og nýtið myndmál þar sem hægt er.
  • Gefið tíma daglega til áætlanagerðar og hvetjið starfsmenn til að gera lista yfir verkefni dagsins.

Tölur og áttavilla

Sumir eiga verra með að eiga við tölur en texta og þá verður að taka sérstakt tillit til þess.

  • Hvetjið viðkomandi til að segja tölurnar upphátt, skrifa þær niður eða nýta reiknivél.
  • Bjóðið upp á talandi reiknivélar.

Erfiðleikar með stefnu/ áttir

Áttavilla hrjáir suma lesblinda og eiga þeir t.d. stundum erfitt með að greina á milli hægri og vinstri.

  • Gefið starfsmanninum tíma til að þjálfa sig í að fara frá einum stað yfir á annan.
  • Gott er að hafa GPS staðsetningartæki aðgengileg fyrir þá sem þurfa vinnu sinnar vegna að fara á milli staða.