Greining lesblindu

Endilega deildu okkur

Hefur þú velt fyrir þér hvort þú eða einhver þér nærri glími við lesblindu?

Merki um lesblindu geta komið fram á mismunandi aldri, ýmist fljótlega þegar nemandi finnur fyrir erfiðleikum við lestur og skrift í fyrstu bekkjum grunnskóla eða síðar þegar meira reynir á lestur, stafsetningu og ritun í efri bekkjum grunnskóla eða í framhaldsskóla.

Greining á lesblindu fer fram í flestum skólum landsins, oft í tengslum við kennsluráðgjafa á þjónustumiðstöðvum og/eða skólaskrifstofum sveitarfélaganna.

Í grunnskólum er iðulega markvisst skimað fyrir lestrarerfiðleikum og nemendum þá leiðbeint sérstaklega ef þörf er á. Margir skólar nota greiningartækið „GRP 14h“. Hér eru nánari upplýsingar um þetta skimunarpróf.

Nánari greining á lestrarfærni hefur verið framkvæmd með greiningartækinu „LOGOS“ ef nemandi og foreldrar sækjast eftir því. Um er að ræða hágæða greiningartæki til að nálgast lestrarerfiðleika hjá börnum, unglingum og fullorðnum. Félag lesblindra getur bent á hvar hægt er að komast í LOGOS-greiningu.

Félag lesblindra á Íslandi framkvæmir ekki greiningar á lesblindu en veitir upplýsingar um greiningaraðila. Hægt er að hafa samband við félagið í síma 534-5348 eða koma á skrifstofu félagsins við Ármúla 7b, í Reykjavík.