Úttekt á stöðu lesblindra barna á Íslandi

Endilega deildu okkur

Allt frá stofnun Félags lesblindra hefur verið knýjandi þörf fyrir meiri þekkingu á aðstæðum lesblindra, sérstaklega varðandi kvíða.

Kvíði er vaxandi vandamál í grunnskólum. Rannsóknir hafa sýnt að því meiri streitu sem börn upplifa því næmari eru þau fyrir kvíða. Þetta ásamt erfðum getur stuðlað að langvinnri kvíðaröskun. Lesblinda þýðir ekki endilega að börn séu kvíðin en rannsóknir sýna að hún eykur líkur á kvíða. Börn sem þróa með sér kvíðaröskun bera oft áhyggjur og ótta sem nær ekki einungis til skólaumhverfisins heldur til annarra þátta í lífinu. Þau geta óttast hversdagslega atburði og fengið þráhyggju um hvaða hlutir gætu farið úrskeiðis. Það hefur áhrif á hvernig þeim gengur að takast á við verkefni lífsins og getur hamlað því að þau njóti lífsins að fullu.

Félag lesblindra hefur ráðist í viðamikla vísindarannsókn á stöðu lesblindra barna á Íslandi með sérstakri áherslu á kvíða. Fékk félagið til verksins Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Markmið rannsóknarinnar er að skilja betur áskoranir lesblindra barna og ungmenna svo hægt verði að styðja þau betur. Félagið sem rekið er fyrir sjálfsaflafé og án opinbers stuðnings, hefur safnað fyrir könnuninni í nokkur ár.

Í þessari úttekt felst kortlagning rannsókna á tengslum lesblindu og kvíða, og gagnaöflun sérfræðinga, skólastjórnenda, nemenda, kennara og foreldra. Verður leitast við að svara hversu algeng lesblinda sé meðal grunnskólabarna og hvernig greiningu sé háttað. Spurt um líðan barna sem greinst hafa með lesblindu í samanburði við önnur börn. Einnig skoðaðar aðferðir og tæki við greiningu lesblindu á Íslandi.

Í könnuninni taka þátt um 500 lesblind börn á miðstigi og unglingastigi og önnur 500 í samanburðarhópi. Fyrir hvert barn með lesblindugreiningu verður valið barn án lesblindu, í sama bekk og af sama kyni, og munu þau svara spurningum um gengi náms og líðan.

Íslensku samfélagi er mikilvægt að draga fram upplifun og líðan lesblindra barna og varpa ljósi á bjargráð þeirra og úrræði sem nýtast þeim. Von er á fyrstu niðurstöðum um mitt ár.

Höfundur: Guðmundur Johnsen formaður Félags lesblindra á Íslandi